© Aðsend mynd (AÐSEND)

Verð á hótelgistingu þyrfti að hækka um 30% eða svo yfir vetrartímann. Þetta segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels. Fram kemur í viðtali við hana í Morgunblaðinu í dag að verðið nú er ekki nógu hátt miðað við allan kostnað á borð við laun og húsaleigu.

„Stóra verkefnið er því að lengja ferðamannatímabilið. Við þurfum þess vegna að herja á markhópa sem eru reiðubúnir til þess að borga betur á veturna,“ segir hún.

Í blaðinu er bent á að Icelandair Hotels tapaði 71 milljón króna árið 2012 og 214 milljónum árið áður. Magnea Þórey segir að gert sé ráð fyrir að félagið verði rekið með hagnaði í ár.

„Ásamt okkar miklu fjárfestingu hafa leigusalar okkar tekið þátt í uppbyggingu hótelanna sem svo aftur skilar sér í hækkun húsaleigu. Þrátt fyrir að ársnýting hótela hér á landi sé óðum að jafnast út sökum aukins fjölda ferðamanna yfir veturinn, eru hótelin enn að ná meginhluta EBITDA-framlegðar ársins inn yfir háönn sem samanstendur af örfáum sumarmánuðum. Þetta gerir það að verkum að sjóðstreymið er erfitt í marga mánuði á ári á sama tíma og fjárfesting fer að mestu leyti fram yfir lágönn, sem aftur skilar hærri fjármagnskostnaði heilt yfir. Almennt fer meðalverð á hótelum hækkandi en við þurfum að gera enn betur. Hér á landi eru hlutfallslega allt of fá hótel sem bjóða upp á meiri gæði en önnur,“ segir hún.