Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, telur varasamt að taka einfalt margfeldi af skráðu verði olíu á heimsmarkaði og gengi Bandaríkjadals á hverjum tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum vegna fréttar á vef FÍB um það mat að verðlækkanir á erlendum mörkuðum hafi ekki skilað sér til neytenda í samræmi við lækkunina.

Jón Ólafur segir að nauðsynlegt sé að taka tillit til fleiri breytna, eins og til dæmis dreifingarkostnaðar, afslátta og birgða. Hafa þurfi í huga að álagning á eldsneyti sé frjáls eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þegar eldsneytisverð á Íslandi og í nálægum löndum, s.s. Danmörku, sé borið saman komi í ljós að ekki sé mikill munur á verðinu.

Hann bendir á að eldsneyti hjá Olís og ÓB hafi lækkað um tæpar 40 krónur á lítra á undanförnum vikum og það sé mat fyrirtækisins að verðlækkun á eldsneyti hafi skilað sér hratt sem sé öllu hagkerfinu til góða.

Innflutningsverð og skattar vega þungt

„Eins og áður er getið er að eins hluti af útsöluverði bensín og díselolíu innflutningsverð. Margt annað kemur til líka, eins og skattlagning, flutningur, þjónusta og samkeppnisumhverfi. Um 53% af bensínverði á Íslandi er til komið vegna skattlagningar eða um 113 kr/l. Ísland er eyja í Norður-Atlantshafi og aðflutningar til landsins eru hlutfallslega dýrari en fyrir þær þjóðir sem búa á meginlandi Evrópu, og jafnvel í Skandinavíu sem við berum okkur oftast saman við,“ segir Jón Ólafur og segir að þessu til viðbótar séum við fámenn þjóð í strjálbýlu landi þar sem eldsneytisdreifing sé mjög dýr.

Hann segir að lokum að þjónustustig við bíleigendur hér á landi sé mjög hátt. Þéttleiki bensínstöðva sé mikilll eins og margoft hafi komið fram og eldsneytisverð sé það sama um allt land. „Verðsamkeppni er mikil hér á landi og hart barist um hylli viðskiptavina eins og tilboð og tryggðakerfi sýna vel fram á.“