Þótt tollar og skattar verði lækkaðir á íþróttavörur er ekki víst að það skili sér í lækkun á útsöluverði vara, að mati Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar, framkvæmdastjóra verslunarinnar Sports Direct. Hann segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um viðskipti, marga kvarta yfir ýmsum þáttum í umhverfi verslunarreksturs.

„Auðvitað er rétt að tollar og skattar eru of háir. Tollakerfið hér er eitt það flóknasta sem ég veit um. En það er samt svo margt annað sem hægt er að laga líka. Ef menn ætla í alvöru að taka til í álagningu geta þeir vel gert það heima hjá sér fyrst, áður en nokkuð kemur frá ríkinu,“ segir hann og bætir við að hægt sé að reka verslun ef kostnaði er haldið niðri.

Verslun Sports Direct opnaði í Kópavogi fyrir um einu og hálfu ári. Verslunin flytur frá Smáratorgi yfir í Lindir í næsta mánuði. Við það nánast tvöfaldast verslunin að stærð.