Formenn flokkanna hafa farið einn af öðrum á fund forsetans á Bessastöðum í dag, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá í morgun hafa þegar komið fram hugmyndir um minnihlutastjórn.

Vill mynda frjálslynda miðjustjórn

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði flokkinn vilja mynda frjálslynda miðjustjórn þegar hann kom af fundi forsetans. Sagðist hann líta svo á að Viðreisn væri í lykilstöðu þegar kæmi að stjórnarmyndun.

„Við erum í þessu til þess að ná okkar málefnum fram þannig að við munum kappkosta að gera það,“ segir Benedikt í samtali við Morgunblaðið .

Þar ítrekaði hann að hafa einungis útilokað eitt stjórnarmynstur, það er með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Útilokar ekki minnihlutastjórn

Sagði hann útspil Pírata um að þeir og Samfylking myndu styðja minnihlutastjórn með VG og Bjartri framtíð vera áhugaverða lausn sem hann myndi ekki útiloka.

Bjarni Benediktsson sagðist aðspurður ekki útiloka neitt stjórnarsamstarf og sagði hann það ekki eiga að koma á óvart að hann héldi áfram að ræða við aðra flokka á næstunni.

Vill finna leið til að búa til góða og sterka ríkisstjórn

Óttar Proppé formaður Bjartrar Framtíðar sagðist alveg geta ímyndað sér þátttöku í minnihlutastjórn líkt og þeirri sem hér að ofan hefði verið lýst.

„Mér hugnast best að við finnum einhverja leið til þess að búa til góða og sterka ríkisstjórn,“ sagði Óttarr.