Stofnun Jafnréttissjóðs Íslands var samþykkt á hátíðarþingfundi á Alþingi í morgun með þingályktun.

Markmið sjóðsins á að vera að fjármagna og styrkja verkefni sem ætlað er að stuðla að jafnrétti. Sjóðurinn á að fá 100 milljónir króna á ári, næstu fimm árin, samkvæmt þingályktuninni.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu. Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði henni.

Í þingræðu sinni um tillöguna á þriðjudag sagði Sigríður m.a.: „Á föstudaginn minnast menn þeirra tímamóta að fyrir 100 árum öðluðust konur kosningarrétt, sumar hverjar. Það er auðvitað full ástæða til þess að fagna á þessum degi og leggja áherslu á þau grundvallarmannréttindi sem í kosningarréttinum felast.

Þingsályktunartillaga sú sem hér hefur verið mælt fyrir er lögð fram af þessu tilefni, þ.e. í þeim tilgangi að minnast þessa 100 ára afmælis. Ég vil hins vegar lýsa yfir vonbrigðum mínum með þessa þingsályktunartillögu sem ég tel að sé nú ekki neitt annað en enn eitt ríkisútgjaldamálið. Í tillögunni er lagt til að verulega háum fjármunum sé deilt út með afar ómarkvissum hætti í ýmis verkefni sem þarna eru talin upp á sama tíma og fé vantar í mörg nauðsynleg verkefni sem ég veit að er jafnvel þverpólitísk samstaða um að ráðast þurfi í.

Ég ætla auðvitað ekki að tala fyrir hönd allra kvenna eða nokkurra annarra en bara sjálfrar mín, en það er nú mín skoðun að virðingu kvenna sé enginn sérstakur sómi sýndur með þingsályktunartillögu af þessu tagi sem sendir 500 millj. kr. reikning til skattgreiðenda, sem ég leyfi mér nú að minna á að er um helmingur konur.“

Hér má lesa þingsályktunartillöguna í heild sinni:

Þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands.

________

Alþingi ályktar, í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt með stjórnarskrárbreytingu 19. júní 1915, að stofnaður verði Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóður Íslands styrki verkefni sem auka jafnrétti kynjanna og hafi að markmiði að fjármagna eða styrkja:
a.     verkefni sem eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu,
b.     verkefni sem varpa ljósi á samfélagslegan, um­hverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti og styrkja jafnrétti á alþjóðavísu, t.d. með kynningu á íslenskum lausnum og áherslu á bætta stöðu kvenna í þróunarlöndum og á norðurslóðum,
c.     verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi,
d.     þróunarverkefni í skólakerfinu sem er ætlað að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum,
e.     verkefni sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar þátttöku í samfélagslegum verkefnum og stjórnmálastarfi og stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess,
f.     rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.
Alþingi kjósi þriggja manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara.
Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutanir úr sjóðnum 19. júní ár hvert.
Stjórn sjóðsins eigi samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni hans.
Miðað verði við að verulegum hluta árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands verði varið til verkefna sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu, sbr. b-lið 1. mgr.
Jafnréttissjóður Íslands taki á starfstíma sínum við rannsóknarverkefnum Jafnréttissjóðs sem starfar samkvæmt reglum nr. 513/2006.
Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, heyri undir forsætisráðuneytið.
Forsætisráðherra setji nánari reglur um úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.