Fjárfestirinn Gunnlaugur Briem, fyrrverandi starfsmaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, neitaði sök í skattamáli sérstaks saksóknara gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Gunnlaugi er gefið að sök að hafa vantalið tekjur sínar um tæpar 600 milljónir króna á árunum 2006 til 2008 og skotið 60 milljónum króna undan skatti.

Vb.is sagði frá því fyrir rúmum mánuði að embætti sérstaks saksóknara hafi gefið út ákæru á hendur Gunnlaugi 22. janúar síðastliðinn. Málið var upphaflega á dagskrá 8. febrúar og greindi Gunnlaugur gat hins vegar ekki mætt þá og málinu því frestað þar til í dag. Málið fór í það sem kallað eðlilegan farveg, farið var fram á greinargerðafrest og verður það næst á dagskrá um miðjan maí.

Braut reglu Lífeyrissjóðs verslunarmanna

Gunnlaugur var umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði en hann gerði 584 gjaldmiðlasamninga á þeim árum sem skattabrotin eru talin ná yfir. Á sama tíma vann hann á eignastýringarsviði Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Guðmundur Þ. Þórhallsson , framkvæmdastjóri Lífeyrissóðs verslunarmanna, sagði í samtali við vb.is sama dag og fjallað var um málið í síðasta mánuði að gjaldeyrisviðskipti Gunnlaugs hafi komið öllum á óvart. Stjórninni hafi ekki verið kunnugt um þau fyrr en hún fékk pata af rannsókn embættis sérstaks saksóknara í fyrrasumar. Stjórn lífeyrissjóðsins hefði aldrei veitt Gunnlaugi leyfi til að stunda viðskiptin enda um klárt brot á reglum að ræða. Gunnlaugur hætti störfum hjá lífeyrissjóðnum til að fara í nám.

Fram kemur í ákærunni að Gunnlaugur gerði gjaldmiðlasamninganna við Landsbankann og Íslandsbanka (síðar Glitni) í evrum og krónum. Háar fjárhæðir voru á bak við einstök viðskipti og hlupu þau frá 100 milljón króna og allt yfir 630 milljónir.

Verði Gunnlaugur fundinn sekur um brotið getur hann átti yfir höfði sér sektargreiðslu sem jafngildir margfaldri skattfjárhæðinni og allt að sex ára fangelsi.