Sextíu og fimm prósent líkur eru á því að ný bankakreppa hefjist fyrir lok mánaðarins að mati greiningarfyrirtækisins Exclusive Analysis, að því er segir í frétt CNBC. Er spáin byggð á líkönum fyrirtækisins og segja sérfræðingar þess að sífellt líklegra sé að í stað þess að velta boltanum á undan sér grípi leiðtogar ESB til aðgerða sem muni leiða til fjármálakreppu. Að mati Exclusive Analysis er að Bandaríkin, Bretland, Rússland, Kína, Brasilía og Indland muni neita að taka þátt í því að fjármagna björgunarsjóð ESB í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Versta hugsanlega niðurstaðan í líkanareikningi fyrirtækisins er að ríkisstjórnir Grikklands og Portúgals falli vegna skorts á samkomulagi um hvernig koma eigi löndunum út úr efnahagsvandanum. Það muni svo leiða til samfélagsóróa í löndunum og Þjóðverjar verði sífellt tregari til að koma öðrum evruríkjum til bjargar eða stækka björgunarsjóðinn.

Fari svo að björgunarsjóðurinn verði ekki stækkaður gera sérfræðingarnir ráð fyrir því að evrópskir bankar neiti að samþykkja 50% niðurfellingu á grískum ríkisskuldum. Bæði evrópski seðlabankinn og AGS muni í kjölfarið hætta greiðslum til Grikklands. Þar á eftir spáir Exclusive Analysis því að lánshæfiseinkunn Frakklands verði lækkuð og einkunn björgunarsjóðsins sömuleiðis. Þessari atburðarás mun svo ljúka 23-26. nóvember næstkomandi þegar Grikkland gengur úr evrusvæðinu og hefur prentun á eigin gjaldmiðli. Allir sem eiga grísk ríkisskuldabréf munu því tapa gríðarlegum fjárhæðum, en í þeim hópi eru nokkrir mjög stórir bankar.