Eigendur Capacent ehf. skulda þrotabúi GH1 ehf. ( sem áður hét Capacent) 167 milljónir króna eftir að hafa keypt félagið. Þetta er mat dómskvaddra matsmanna sem unnið hafa skýrslu fyrir skiptastjóra GH1 ehf. Viðskiptablaðið er með matið undir höndum.

Hlutverk þeirra var að meta sannvirði, þ.e. eðlilegt söluverð, fyrir rekstur GH1, viðskiptavild, vörumerkið Capacent og fleiri þátta. Skiptastjóri þrotabúsins heldur því fram að eigendur Capacent hafi keypt veðsettar kröfur út úr þrotabúi félagsins sem síðar var tekið til gjaldþrotaskipta.

Í fyrrnefndu mati, sem unnið er af þeim Stefáni Svavarssyni, löggiltum endurskoðanda, og Benedikt Jóhannessyni, tryggingarstærðfræðingi, fyrir skiptastjóra GH1, kemur fram að kaupverðið á rekstri Capacent var um 85,9 milljónir króna auk þess sem vörumerkið Capacent var keypt á 6 milljónir króna. Matsmenn taka fram í skýrslu sinni að ekkert bendi til þess að óháður aðili hafi verið fenginn til að meta verðmæti rekstursins.

Eins og áður hefur komið fram komu tilboð í rekstur Capacent eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota, m.a. frá Creditinfo sem bauð 250-300 milljónir króna í reksturinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.