Styrking á gengi krónunnar kom sterkt fram í 0,7% lækkun á verði mat- og drykkjarvöru í síðustu verðbólgumælingu sem birt var í morgun . Þessi liður hefur ekki lækkað mafn mikið á milli mánaða síðan í ágúst árið 2012. Hjálpar þar væntanlega til það átak sem farið var í við að fylgja því eftir að lækkun innflutningsverðs kæmi fram í verðlækkun innfluttrar dagvöru, að mati Greiningar Íslandsbanka. Vísitala neysluverðs hækkaði minna en búist var við og reyndist verðbólga sömuleiðis minni. Verðbólga er nú undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Samkvæmt tölunum mælist 2,1% verðbólga í mánuðinum og hefur hún ekki verið minni síðan í febrúar árið 2011. En Greining Íslandsbanka segir tölurnar merkari en þetta og skrifar í Morgunkorni sínu:

„Fara þarf mun lengra aftur í tímann til þess að finna minni verðbólgu sé húsnæði undanskilið í vísitölunni, en á þann kvarða mælist verðbólga 0,8% og hefur ekki verið minni síðan í ágúst árið 2007.Verðbólgumarkmið Seðlabankans er þar með í höfn, og er útlit fyrir að verðbólga haldist við markmiðið út árið. Gangi spá okkar eftir má Seðlabankinn vel við una, enda hefur verðbólgumarkmiðið ekki náðst í jafn langan tíma undanfarinn áratug.“