Félag atvinnurekenda hefur lýst yfir óánægju sinni með breytingar sem Alþingi samþykkti á búvörulögum í síðustu viku. Segir félagið að þarna sé verið að festa í sessi fyrirkomulag sem að áliti Samkeppniseftirlitsins hækki vöruverð og hindri samkeppni.

Í frétt FA kemur fram að forsaga málsins sé að í mars síðastliðnum felldi Héraðsdómur Reykjavíkur þrjá dóma þar sem innheimta útboðsgjalds fyrir innflutningskvóta á búvörur er úrskurðuð ólögmæt og í andstöðu við stjórnarskrá. Dómurinn taldi gjaldið skatt og að með því að gefa landbúnaðarráðherra val samkvæmt búvörulögum um hvort innflutningskvóti væri boðinn út eða varpað um hann hlutkesti hefði Alþingi framselt of mikið skattlagningarvald til ráðherrans.

Fram kemur í frétt Félags atvinnurekenda að breyting meirihluta Alþingis á búvörulögunum gangi þvert gegn ábendingum Samkeppniseftirlitsins, sem hefur ítrekað lagt til að útboð á tollkvóta verði aflagt.

„Útboð landbúnaðarráðuneytisins á tollkvótum vegna innflutnings á kjöti, smjöri og ostum verði felld niður í núverandi mynd. Verði þau ekki lögð niður er lagt til að úthlutun verði endurgjaldslaus og eftir atvikum hlutkesti varpað sé ásókn umfram kvóta,” sagði m.a. í skýrslu eftirlitsins um dagvörumarkaðinn í mars.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, er afar ósáttur með gang mála.

„Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum en koma því miður ekki að öllu leyti á óvart,“ segir hann.

,,Þegar kemur að landbúnaðinum virðast bæði ríkisstjórn og Alþingi, sama hver er þar í meirihluta, líta svo á að sjónarmið um samkeppni og hag neytenda skipti ekki máli. Þegar brotið er á rétti neytenda fer löggjafinn í það að hylma yfir brotið og réttlæta það í stað þess að rétta hlut neytenda. Þetta er galið.“