Í bréfi sem lögmannstofan Logos sendir fyrir hönd eignarhalds slitabús Glitnis eru gerðar athugasemdir við fréttaflutning Kjarnans í fréttaskýringu hans „ Að vera eða vera ekki innherji “ sem birtist í gær og hann sagður ólögmætur. Vísað er til þess að fyrir liggi lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media frá Glitni í síðasta mánuði. Í því ljósi er farið fram á upplýsingar um hvort frekari fréttir upp úr gögnunum verði birtar og ef frekari frétta er að vænta að Glitni verði tilkynnt um það með tveggja sólarhringa fyrirvara. Jafnframt segir að „Glitnir HoldCo áskilji sér rétt til að grípa til allra lögmætra aðgerða.“

Frá þessu er greint í leiðara Kjarnans en undir hann ritar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sem segir að „[þ]ær kröfur sem settar eru fram í bréfi lögmanna Glitnis til Kjarnans, um að fjölmiðill upplýsi einkahlutafélag utan um eignir gjaldþrota banka fyrirfram um hvaða fréttir hann ætli mögulega að segja, eru algjörlega fjarstæðukenndar.“ Og bætir við „Kjarninn mun að sjálfsögðu ekki verða við þeim undir neinum kringumstæðum.“

Þá segir jafnframt í leiðaranum að í niðurlagi bréfsins þar sem frekari aðgerðum er hótað, verði ekki orðið við kröfum Glitnis, sé einn eitt dæmið um þöggunartilburði í tengslum við málið. „Það sem er að eiga sér stað hér er gríðarlega alvarlegt mál, algjörlega óháð því hvert andlag fréttanna sem fluttar hafa verið er. Hér á sér stað aðför að lýðræðislegri umræðu.“