Þingmenn Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem sæti eiga í atvinnuveganefnd Alþingis segja stjórnarfrumvarpið um veiðigjöld sem afgreitt var úr nefndinni í gær óklárað. Málið hafi ekki verið fullrætt í nefndinni. Þau eru ósammála meirihluta atvinnuveganefndar um að ekki þurfi að gera breytingar á málinu og hafa lagt fram sameiginlega breytingatillögu í þremur liðum.

Í fyrsta lagi leggja þingmennirnir til að veiðigjöld á botnfiskafla verði óbreytt frá núgildandi lögum og verði  því 23,20 kr. í stað 7,38 kr. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Í öðru lagi leggja þeir til að minni aðilum í útgerð verði mætt og því verði frítekjumörk á sérstakt veiðigjald á botnfiski hækkuð. Í þriðja lagi leggja þeir svo til breytingu sem gerir Veiðigjaldanefnd kleift að fá þau gögn sem til þarf svo leggja megi gjaldið á lögum samkvæmt.

Önnur umræða um veiðigjaldið stendur nú yfir á Alþingi. Þingflokkur Pírata boðaði málþóf um það í gær eða þar til forseti Ísland snýr aftur heim úr ferð sinni til Þýskalands.