Matthías Imsland, fyrrv. forstjóri Iceland Express og núverandi rekstrarstjóri Wow air, er sagður hafa undirbúið stofnun Wow air á meðan hann var forstjóri Iceland Express.

Þetta sagði Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, á blaðamannafundi fyrir stundu þar sem farið var hörðum orðum um Matthías og Wow air. Þá sagði Heimir Már að Matthías hefði tekið með sér trúnaðargögn þegar honum var sagt upp sem forstjóra þann 19. sept. sl.

Sem kunnugt er hefur Wow air lagt fram kæru á hendur Pálma Haraldssyni, Iceland Express, Birni Vilberg Jónssonar og annarra ótilgreindra starfsmanna Iceland Express. Kæran varðar meintar njósnir Pálma og Iceland Express gegn WOW Air.

Þeir Heimir Már og Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Iceland Express, svöruðu fyrir kæruna á blaðamannafundi fyrir stundu. Þeir viku einnig að starfslokum Matthíasar á fundinum. Meðal annars voru lagðir fram tölvupóstar sem sýna að Matthías hafi unnið að því að leigja Boeing 737-400 vélar af kanadísku fyrirtæki. Heimir Már sagði á fundinum að Matthías hefði ekki verið beðinn um að leigja umræddar vélar fyrir Iceland Express. Rétt er að taka fram að ekki kemur fram í umræddum tölvupóstum að vélunum sé ætlað að þjóna öðru flugfélagi en Iceland Express.

Rétt er að rifja upp að Iceland Express fór sl. haust fram á lögmannsbeiðni á störf Matthíasar hjá Wow air en sýslumaður hafnaði þeirri beiðni. Aðspurður um það sögðu þeir Heimir Már og Skarphéðinn Berg að ekki hefði fundist upprunalegur ráðningasamningur við Matthías hefði ekki fundist þegar lögmannsbeiðnin var lögð fram. Að sögn Heimis Más hefur sá samningur þó komið í leitirnar og þar sé að finna ákvæði um að Matthíasi hafi ekki verið heimilt að starfa fyrir aðra aðila.

Viðbót kl. 17:11 : Viðskiptablaðið komst yfir gögn sem sýna að fullyrðingar um að Matthías hafi verið byrjaður að undirbúa stofnun Wow air á meðan hann gegndi stöðu forstjóra Iceland Express eru rangar. Sjá HÉR .

Matthías Imsland - Iceland Express
Matthías Imsland - Iceland Express
© BIG (VB MYND/BIG)