Eftirspurn eftir hlutabréfum N1 var mikil í almennu hlutafjárútboði sem lauk í gær, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Niðurstöður útboðsins verða ekki kynnt fyrr en á morgun. Arnar Ingi Einarsson hjá Entra viðskiptaráðgjöf segir í samtali við blaðið útkomuna og framhaldið ráðast af því hvort lífeyrissjóðirnir hafi verið með eða ekki.

Arnar segir í samtali við blaðið að Entra, sem gaf út verðmat á N1 í gær, lítist ágætlega á félagið.

„Það er búið að ganga í gegnum töluverðar umbætur og reksturinn hefur verið einfaldaður. Hins vegar teljum við að það sé ekki mikill fyrirsjáanlegur vöxtur nema bara smárekstrarhagræðing. Svo eru stjórnendur félagsins búnir að gefa út metnaðarfulla áætlun um hvernig þeir sjá næstu ár fyrir sér og ef þeim tekst það er kominn grundvöllur fyrir hækkun á hlutabréfunum í nánustu framtíð,“ segir hann.