Í minnisblaði bæjarfulltrúa og starfsmanna Vestmannaeyjabæjar er því haldið fram að ríkið eyði að óþörfu um 130 milljónum á hverju ári sem það dregst hjá því að láta smíða nýja ferju í stað Herjólfs. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Þar segir að í minnisblaðinu komi fram að rekstrarkostnaður hinnar nýju ferju sé um 400 milljónum lægri en hjá Herjólfi. Þá sé lántökukostnaður vegna nýju ferjunnar um 270 milljónir á ári verði skipið að fullu fjármagnað með lántöku. Þannig „brennir“ ríkið að óþörfu 130 milljónum á hverju ári sem það dregur að láta smíða nýtt skip samkvæmt minnisblaðinu.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, að slæmt aðgengi að eyjunni komi niður á ferðaþjónustu bæjarins. „Eyjamenn eru farnir að einangrast í fimm til sex mánuði á ári og þá slökknar á þeirri blómlegu ferðaþjónustu sem hér hefur verið,“ segir Elliði.