Steingrímur J. Sigfússon er sagður hafa hagnast um 15 milljónir króna frá því „eftirlaunafrumvarpið“ svonefnda tók gildi 30. desember 2003, umfram það sem óbreytt lög hefðu fært honum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Andríki, útgáfufélagi Vefþjóðviljans sem í dag fjallar um frumvarp um eftirlaun.

Í grein sinni vekur Vefþjóðviljinn athygli á því að ríkisstjórnin ætli nú að fella úr gildi sumar þær breytingar sem gerðar voru á eftirlaunafrumvarpinu árið 2003 en þó ekki allar.

Þannig vekur blaðið athygli á því að með frumvarpinu hafi meðal annars verið sett ákvæði um að þeir alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, fái greitt 50% álag á þingfararkaup.

„Með „eftirlaunafrumvarpinu“ fengu formenn stjórnarandstöðuflokkanna, sem þá voru Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón A. Kristjánsson, þannig 50 % launahækkun á mánuði,“ segir í grein Vefþjóðviljans.

Blaðið segir að frá því að lögin hafi tekið gildi, þann 30. desember 2003 séu liðin 61 mánaðarmót en allan þann tíma hafi Steingrímur J. verið formaður Vinstri grænna og því fengið þingfararkaup með 50 % álagi vegna laganna.

„Eftir þá launalækkun sem ákveðin var um áramót er þingfararkaup 520.000 krónur á mánuði. [...] Sá sem fær 50 % álag á þingfararkaup í 60 mánuði fær þannig 15.600.000 krónur í sinn hlut,“ segir í grein Vefþjóðviljans.

Þá kemur jafnframt fram að Steingrímur J., sem nú er fjármálaráðherra, hafi nú lagt fram frumvarp um afnám eftirlaunalaga.

„Svo skemmtilega vill til, að frumvarp hans myndi afnema öll ákvæði „eftirlaunafrumvarpsins“, nema 23. gr. Þess,“ segir Vefþjóðviljinn.

„Samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar er ekki ætlunin að breyta því atriði sem færði Steingrími þessar 15 milljónir króna.“

Sjá grein Vefþjóðviljans.