Alþjóðleg hótelkeðja mun opna sitt fyrsta hótel á Íslandi í gamla sjónvarpshúsinu að Laugavegi 176 samkvæmt heimildum Fréttablaðsins . Í frétt blaðsins kemur ekki fram hvaða keðju um ræðir, en tekið er fram að Fasteignafélagið Reitir hafi átt í viðræðum við keðjuna og stefnt sé að undirritum samninga síðar í sumar.

Áform Reita eru þau að stækka húsið þannig að það verði um 6.700 fermetrar að stærð að því er kemur fram í fréttinni, einnig er gert ráð fyrir því að rífa skemmu bak við húsið og stækka húsið um eina hæð. Herbergjafjöldi verður á bilinu 120 til 160 auk verslunar- og þjónusturýma á jarðhæð ef rétt reynist. Í fyrra var efnt til skipulagssamkeppni um reitinn og segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að í kjölfar þess að niðurstöður úr samkeppninnar liggja fyrir verði lagt mat á verðlaunatillöguna og útfærsla fundin þar sem allir hlutaðeigandi geta verið sáttir um.

Hann bætir við að þetta mál sé í ákveðnu ferli og vonast hann til þess að þess að það haldi sínum takti svo að framkvæmdir geti hafist frekar fyrr en síðar. Auglýst var eftir rekstraraðilum að hótelinu fyrir tæpu ári og herma heimildir Fréttablaðsins að þekkt alþjóðleg keðja, sem aldrei hafi rekið hótel á Íslandi, orðið fyrir valinu og að samningaviðræður við Reiti séu langt komnar.