Forsvarsmenn nokkurra evrópskra flugfélaga, þar á meðal easyJet og Norwegian, segjast ekki vera að kanna möguleika á millilandaflugi frá Akureyri. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Eins og VB.is greindi frá um helgina var í Vikudegi haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, að lággjaldaflugfélög frá Þýskalandi, Bretlandi og Skandinavíu væru að kanna möguleika á millilandaflugi frá Akureyri. Meðal þeirra flugfélaga væru easyJet og Norwegian. Arnheiður sagðist vonast til þess að millilandaflugið myndi hefjast næsta sumar.

Samkvæmt frétt Túrista eru engin slík áform uppi. Bergþór Erlingsson hjá Flugklasanum 66N segir þrátt fyrir þetta í svari til Túrista að Markaðsstofa Norðurlands og Isavia hafi fundað með Norwegian og easyJet um flug til Akureyrar.