Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, og nokkrir aðrir seðlabankastjórar segja að hagkerfi heimsins sé að hægja á sér en að viðsnúningur sé framundan þar sem mikil innspýting hins opinbera, lágir vextir og lægra orkuverð bæti hagvaxtarhorfur. Þetta kemur fram í WSJ sem fjallar um fund seðlabankastjóra hjá Bank of International Settlements í Basel í Sviss. Trichet sagði þá stund nálgast að ástandið kunni að fara að batna og hefur hann að sögn WSJ ekki áður verið svo jákvæður um núverandi ástand á mörkuðum. Hann sagði fjárfesta sem hefðu í síðustu viku keyrt niður hlutabréfavísitölur hafa vanmetið mikilvægi aðgerða hins opinbera.