Már Guðmundsson seðlabankankastjóri telur að óhjákvæmileg aðlögun efnahagslífsins þurfi að eiga sér stað, að fótum þurfi að koma undir íslenskt fjármálakerfi og að endurreisa þurfi traust erlendra aðila á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Márs á ársfundi Seðlabanka Íslands sem hófst klukkan 16.

Orðrétt sagði Már í ræðu sinni að „stjórnvöld á Íslandi standa nú frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem eiga rætur að rekja til þeirra aðstæðna sem ég hef nú lýst. Ég ætla að nefna þrjár. Í fyrsta lagi þarf að láta óhjákvæmilega aðlögun efnahagslífsins eiga sér stað án þess að verðbólga eða atvinnuleysi festist í sessi. Markmiðið er efnahagsástand sem einkennist af því að slaki er horfinn, hagvöxtur er í samræmi við vöxt framleiðslugetu,verðbólga er við markmið og ytri staða þjóðarbúsins er sjálfbær.

Í öðru lagi að koma fótum undir fjármálakerfi sem þjónar íslenskum heimilum og innlendri atvinnustarfsemi og er jafnframt hvort tveggja í senn hagkvæmt og tiltölulega öruggt.

Þriðja áskorunin er svo sú að endurreisa traust erlendra aðila á íslenskum stofnunum, efnahagslífi og fjármálakerfi, lagfæra tengslin við erlenda fjármálamarkaði og tryggja á ný eðlilegan aðgang ríkis og fyrirtækja að erlendum lánamörkuðum.“

Ræðu Márs frá ársfundinum mál nálgast í heild sinni hér .