Seðlabankinn átti fundi með fjárfestum í hinum ýmsu Evrópulöndum í síðustu og þarsíðustu viku.

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs bankans, segir að ferðin hafi ekki verið tengd ákveðinni lántöku umfram aðrar. Um hafi verið að ræða almenna kynningarfundi fyrir erlenda fjárfesta og lántakan, sem Alþingi heimilaði á dögunum, fari fram þegar markaðsaðstæður leyfi.

Fundirnir fóru fram í London, Dublin, Þýskalandi, Hollandi, Finnlandi og Danmörku.

Aðspurður hvernig hljóðið hafi verið í mönnum segir hann erfitt um það að segja. „En það er hins vegar þannig að í langflestum tilfellum eru menn rólegri eftir því sem þeir vita meira. Okkur hefur fundist þessir fundir hafa skilað því, að fjárfestar séu afslappaðri eftir þá en þeir voru fyrir,“ segir hann.

Sturla segir að mjög erfitt sé að segja fyrir um hvaða kjör bjóðist íslenska ríkinu um þessar mundir. „Lánin eru tekin með útboðum, þannig að kjörin ráðast ekki fyrr en þau eru opnuð,“ segir hann.

Sturla segir að látið verði til skarar skríða um leið og markaðsaðstæður gefi tilefni til, en þær hafi heldur verið að versna að undanförnu. Hann segir að Seðlabankinn líti á skuldatryggingaálag sem lélegt viðmið þegar markaðsaðstæður séu metnar, en frekar sé litið til þess álags sem skuldabréf ríkisins beri ofan á þau kjör sem þýska ríkinu bjóðist.

„Skuldatryggingamarkaðurinn er hvorki háður reglum né eftirliti og auðvelt að spila með hann,“ segir Sturla.