Seðlabanki Íslands hefur áhyggjur af stórum fjárfestum í íslenskum bönkum og mögulegu tapi í íslenska bankakerfinu, að því er haft er eftir Eiríki Guðnasyni seðlabankastjóra í Børsen í dag.

Í frétt Børsen er sagt frá því að íslensk fjárfestingafélög hafi veðsett eignir sínar til að fara út í nýjar fjárfestingar og að stærstu fjárfestingafélögin séu líka stórir hluthafar í stærstu bönkum landsins, sem hafi lánað þeim háar fjárhæðir.

„Um er að ræða mjög mikilvæga fjárfesta í íslensku bönkunum. Ef einhverjir þeirra hrynja mun það valda vanda, en bankarnir fá þá vonandi nýja fjárfesta inn,“ hefur Børsen eftir Eiríki.

Í blaðinu segir að hrun mundi líka þýða verulegt tap fyrir íslensku bankana sem hafi í stórum stíl fjármagnað „yfirtökuævintýri Íslands“.

Spurning hvort félögin geta fengið viðbótarfjármagn

„Þetta er vissulega nokkuð sem við höfum áhyggjur af. Spurningin er um það hvort að félögin eru fær um að fá viðbótarfjármagn ef þau lenda í vandræðum. Sum þeirra geta það, önnur ef til vill ekki. Þetta veldur okkur áhyggjum,“ er haft eftir Eíríki Guðnasyni seðlabankastjóra í Børsen í dag.