„Seðlabanki Íslands [virðist] hafa teflt fram öllum sínum trúverðugleika fram í því að halda vöxtum nægilega háum nægilega lengi til að ná settu 2,5% markmiði innan tveggja ára. Þetta gerist á sama tíma og allur hinn vestræni heimur er í lausafjárþrengingum og hrávörur hafa margfaldast í verði,” segir greiningardeild Kaupþings í hálffimm fréttum hennar í dag.

Vill deildin meina að margir hafi misst trúna á gildi sjálfstæðrar peningamálastefnu, miðað við þá gagnrýni sem bankinn hafi orðið fyrir á opinberum vettvangi.

Láta sem þolmörkin séu ekki til

Greiningardeild Kaupþing segir að ef litið er á þolmörk Seðlabanka Íslands (+/-1,5% í kringum 2,5% markmiðið) sjáist að verðbólgumarkmið bankans hafi svigrúm uppá 1–4% samkvæmt lögum. Þetta sé raunar meiri sveigjanleiki en hjá flestum öðrum löndum á verðbólgumarkmiði.

„Hins vegar hefur Seðlabanki Íslands frá 2005 látið sem þessi þolmörk séu ekki til þegar peningamálastefnan er rökstudd og skýrð. Þess í stað miðar bankinn aðeins við einn punkt, 2,5% verðbólgu, í stað bils.  Þannig hefur verið þrengt verulega að svigrúmi Seðlabankans til þess að styðja við stöðugleika og hamla samdrætti í efnahagslífinu – samhliða því að fylgja verðbólgumarkmiðinu. Bankinn hefur jafnframt sett trúverðugleika sinn að veði til þess að ná mjög þröngu markmiði við mjög erfiðar aðstæður – sem hefur mistekist trekk í trekk þrátt fyrir mikla hækkun stýrivaxta. Og það hlýtur að hafa veikt trúverðugleika bankans.”

Vilja að ríkið víkki út þolmörkin

Þolmörkin hafa hlutverk að mati greiningardeildarinnar og ætti Seðlabankinn að taka þau aftur í notkun sem fyrst.

Telur hún að mætti hugsa sér að íslenska ríkið myndi víkka út þolmörk Seðlabanka Íslands til þess að létta undir með honum.

Þannig myndi bankinn losna við að „streða langt fyrir utan markmið í langan tíma og þannig skaða trúverðugleika sinn eða skaða hagkerfið með því að reyna ná markmiðum sem eru óraunhæf. Forsenda þess að ávinna sér trúverðugleika er að setja sér raunhæf markmið sem hæfa íslenskum aðstæðum frekar en að setja sér of þröng markmið sem bíta af trúverðugleikanum í hvert skipti sem þau falla.”