Ef marka má gjaldeyriskaup Seðlabanki Íslands upp á 1,5 milljónir evra síðustu tvo þriðjudaga þá munu regluleg gjaldeyrisviðskipti bankans eiga sér stað hvern þriðjudag. Á síðasta stýrivaxtafundi Seðlabankans þann 18. ágúst síðastliðinn var tilkynnt um að hafin yrðu regluleg kaup á gjaldeyrismarkaði. Er það gert til að styrkja þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er tekinn að láni.

Þann 31. ágúst og 7. september síðastliðinn keypti Seðlabankinn 1,5 evrur hvorn daginn fyrir sig. Báða dagana var hlutdeild bankans á markaði 100%.

Á síðustu vikum hefur bankinn einnig stundað óregluleg kaup á gjaldeyri. Þannig keypti bankinn gjaldeyri fyrir 6 milljónir evra þann 3. september og þann 25. ágúst keypti hann 5 milljónir evra.

Rúm fyrir frekari vaxtalækkun

Í viðtali við Reuters fréttastofu í dag segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að bankinn sé að kaupa gjaldeyri fyrir 1,5 milljónir evra í hverri viku.

Þá sagði Már að rúm sé fyrir frekari vaxtalækkanir þar sem raunvextir séu enn of háir í landinu. Hann segir að stýrivextir séu enn of háir miðað við verðbólguþróun og efnahagsaðstæður.