Margt bendir til þess að stjórnir og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækja hafi ekki skilið fyllilega eiginleika flókinna fjármálagerninga og ekki verið nægjanlega meðvitaðir um áhættu í rekstri fjármálafyrirtækjanna.

Þetta kemur fram í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem kom út í dag.

Þar segir að aðhald hluthafa og stjórna fjármálafyrirtækja með stjórnendum þeirra hafi verið  ófullnægjandi. Launa- og hvatakerfi hafi stuðlað að áhættutöku með skammtímahagnað að leiðarljósi.

„Mikill þrýstingur var á stjórnendur að stuðla að gengishækkun hlutabréfa og greiða út arð,“ segir í skýrslunni.

„Of mikið traust var lagt á getu fjármálafyrirtækjanna sjálfra til að stýra áhættu og á einkunnir matsfyrirtækja. Eftirlit var um of skorðað við mat á áhættu tengdri einstökum fjármálafyrirtækjum fremur en áhættu fjármálakerfisins í heild. Framvindu mismunandi greina atvinnulífsins og á fjármálamörkuðum var ekki nægur gaumur gefinn.“

Skýrsluhöfundar segja að fjármálakreppan hafi fljótlega leitt í ljós að fjármálaeftirlit landa heims voru ekki í stakk búin til þess að takast á við alþjóðlega fjármálakreppu. Hnökrar hafi verið á upplýsingaskiptum og töku sameiginlegra ákvarðana, þar sem í hlut áttu seðlabankar, fjármálaeftirlit og ráðuneyti.

„Vissulega höfðu ýmsir bent á ójafnvægi og hættu á keðjuverkun,“ segir í skýrslunni.

„Hins vegar vildi skorta að tekin væri sameiginleg afstaða meðal stefnumarkandi aðila og eftirlitsaðila til vandans og aðgerða. Fjármálaeftirlit, hvort heldur innan einstakra ríkja eða yfir landamæri, var takmörkunum háð. Eftirlitsstofnanir skorti viðeigandi gögn, kröfðust þeirra í sumum tilvikum ekki eða fengu umbeðin gögn of seint.“

Þá segir jafnframt að fjármálaeftirlit hafi skort nægjanlegan skilning á þeirri áhættu sem var til staðar, vanmetið hana og því ekki upplýst fjármálaeftirlit annarra landa nægjanlega vel.

„Rík tilhneiging er í hverju landi fyrir sig til að slá skjaldborg um eigið fjármálakerfi,“ segir í skýrslunni.

„Þá voru fjárveitingar til fjármálaeftirlits víðast hvar af skornum skammti. Þau höfðu því minna svigrúm til þess að ráða hæft starfsfólk með viðeigandi reynslu, ekki síst í löndum þar sem vöxtur fjármálakerfisins var mjög hraður.“

Þá segir jafnframt að vegna þess að eftirlit var miðað við einstök fjármálafyrirtæki fremur en kerfið í heild sinni var hætta á keðjuverkun vanmetin. Samkeppni milli fjármálamiðstöðva hafi einnig leitt til þess að eftirlitsaðilar voru tregir til þess að taka sameiginlega á málum.

„Umgjörð viðlagastjórnunar á EES-svæðinu reyndist ófullnægjandi. Þegar í hlut áttu stærri fjármálafyrirtæki sem störfuðu yfir landamæri reyndust viðbrögð eftirlitsaðila veik og samvinna milli fjármálaeftirlita hvers lands og stjórnvalda sem hlut áttu að máli var ófullnægjandi,“ segir í skýrslunni.