Samkvæmt Seðlabanka Íslands kann villandi tímasetning í frétt á visir.is að hafa valdið ákveðnum misskilningi hjá Þorsteini Má Baldvinssyni, stjórnarformanni Glitnis, um boðun blaðamannafundar Seðlabankans á mánudag. Á fundinum var yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni kynnt.

Þorstein Má og Seðlabankann hefur greint á um fundarboð og fundinn og  hafa báðir aðilar sent yfirlýsingar um málið. Seðlabankinn segir til að mynda í yfirlýsingu sinni frá því í vikunni að fundurinn hafi ekki verið boðaður fyrr en fyrir lá undirskrift helstu hlutthafa Glitnis.

Þá hefur fréttastjóri visir.is sett fram eftirfarandi athugasemd:

"Fréttin á visir.is sem vísað er til í 4. lið yfirlýsingar Þorsteins Más Baldvinssonar, var ekki skrifuð kl. 09.16 heldur var um að ræða uppfærða frétt sem var skrifuð á þeim tíma um að FME hefði stöðvað viðskipti með bréf Glitnis í Kauphöllinni. Ritstjórn barst póstur frá Seðlabanka Íslands kl. 9.25 og var fréttin uppfærð þá. Í öllum látunum gleymdist hins vegar að uppfæra tímann á fréttinni."

Sjá má yfirlýsingu Seðlabankans frá því í gær hér. Og yfirlýsingu Þorsteins Más hér .