Stjórnendur franska bankans Crédit Agricole, þriðja stærsta banka Frakklands, greindu frá því í dag að búið væri að selja Emporiki, banka Crédit Agricole á Grikklandi. Það er gríski bankinn Alpha Bank sem kaupir. Verðið er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það er ein evra, tæpar 160 íslenskar krónur, og þarf franski bankinn að afskrifa tvo milljarða evra hið minnsta, jafnvirði 320 milljarða íslenskra króna, vegna sölunnar.

Eins og erlendir fjölmiðlar lýsa málinu, s.s. bandaríska dagblaðið Wall Street Journal , er salan lokahnykkurinn á tilraunum Crédit Agricole til landvinninga í syðsta hluta Evrópu sem hófst með kaupum bankans á Emporiki árið 2006.

Tilraunir Frakka til landnáms þar hafa reynst kostnaðarsamar. Crédit Agricole lagði Emporiki til 2,5 milljarða evra í eiginfjárinnspýtingu í júlí og hefur auk þess skráð sig fyrir kaupum á 150 milljónum evra að skuldabréfum með breytirétti sem Alpha Bank gefur út í tengslum við viðskiptin. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum má breyta skuldabréfum í hlutabréf í Alpha Bank.