Seltjarnarnesbær fagnar 40 ára kaupstaðarafmæli á morgun. Af því tilefni verður blásið í lúðrana og fagnað á afmælisdeginum sjálfum og líka út allt árið. Útilistaverk verður afhjúpað klukkan tólf á hádegi, forsetahjónin koma í heimsókn í Mýrarhúsaskóla klukkan 13 og dagskráin teygir anga sína út um allan bæ.

Dagskráin nær hápunkti á afmælisdagskrá á Eiðistorgi klukkan 17-19 þar sem forsetinn ávarpar gesti, myndlistarsýning verður opnuð, kunnir tónlistarmenn stíga á stokk, trúðar skemmta börnum og fleira og fleira.  Öll grunnskólabörn fá gjöf frá bænum og fjölmörg fyrirtæki á Nesinu sameinast um opin hús, sýningar, kynningar, afslætti og fleira skemmtilegt í tilefni dagsins.