Gömul upptaka af morgunleikfiminni á Rás 1 var send út fyrir mistök í morgun. Í þættinum kvaddi Halldóra Björnsdóttir hlustendur og sagði þáttinn hafa verið felldan niður. Hann verði frá og með morgundeginum ekki á lengur á dagskrá. Dagskrárritstjóri RÚV sagði í samtali við VB.is í dag símann ekki hafa stoppað frá því útsendingunni lauk og hafi hún getað glatt marga með því að um mistök hafi verið að ræða og að leikfimin verði áfram á dagskrá.

Halldóra tekur upp nokkra þætti í einu og vinnur oft langt fram í tímann. Þegar þátturinn sem sendur var út í morgun lá fyrir að þátturinn yrði með breyttu sniði á dagskránni. Halldóra hefur verið umsjónarmaður morgunleikfiminnar á Rás 1 síðan árið 1987.

Síðast stóð til að hætta útsendingum morgunleikfiminnar síðla árs 2008. Margir létu í sér heyra þá, m.a. Samtök lungnasjúklinga og íþróttakennarar og sjúkraþjálfarar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Fokreiður fyrrverandi ráðherra

Ný frumvörp um kvótakerfið
Ný frumvörp um kvótakerfið
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra VG, var einn þeirra sem hlustaði á morgunleikfimina á Rás 1 í morgun. Að þættinum loknum skrifaði hann bloggfærslu um málið þar sem hann harmar ákvörðunina og tengir hana við þá ákvörðun að hætta með Orð dagsins og bænir. Hann segir Halldóru hafa verið sem heimilisvin og hvetur samtök aldraðra til að láta í sér heyra.

Jón skrifar:

„Sjálfssagt kemur einhver umræðu þáttur í staðinn um gildi hreyfingar þar sem hver hlær upp í annan og hefur óendanlega mikið vit á málinu.“

Viðbót:

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur sent út yfirlýsingu vegna útsendingarinnar í morgun. Í henni segir:

„Á morgun hefst vetrardagskrá Rásar 1 og Rásar 2.  Hlustendur munu verða varir við nokkrar breytingar á dagskránni sem aðallega felst í ólíkri uppröðun og tímasetningum dagskrárliða. Einstaka liðir falla út og aðrir nýir koma í staðinn. Markmiðið er að dagskráin verði markvissari og hnitmiðaðari. Það skal tekið sérstaklega fram að Morgunleikfimi Halldóru Björnsdóttur heldur áfram á sínum stað í nýrri dagskrá Rásar eitt en fyrir mistök fór í morgun í loftið eldri upptekinn þáttur þar sem Halldóra kvaddi en þegar þátturinn var tekinn upp hafði verið gert ráð fyrir að þátturinn yrði með breyttu sniði í dagskránni.“