Fram kemur í fréttatilkynningu frá Símanum að ákveðið hafi verið að Sensa, dótturfélag Símans, muni taka við þjónustu Símans í upplýsingatækni. Breytingin kemur í kjölfar þess að öll upplýsingatækni Símans var sameinuð í apríl síðast liðnum.

Eftir sameininguna verður Sensa eitt stærsta upplýsingatæknifyrirtæki á Íslandi, með 120 sérfræðinga á Íslandi, og mun taka yfir þann rekstur, þjónustu, vöruþróun og sölu á upplýsingatæknilausnum sem hafa verið hjá Símanum.

Valgerður H. Skúladóttir framkvæmdastjóri Sensa verður framkvæmdastjóri sameinaðs félags. Segir hún það vera spennandi áskorun að taka yfir upplýsingatækniþjónustu Símans.

„Sensa hefur byggt árangur sinn á sérfræðiþjónustu sem kröfuharðir viðskiptavinir sem nýta sér tæknina í sínum rekstri og þjónustu, geta nálgast eins og þeim hentar best. Með þessari sameiningu stígum við skref saman til að geta tekist á við nýja nálgun í hagkvæmnum rekstri í upplýsingatækni og boðið fleiri þjónustuþætti, eins og t.d. skýjaþjónustu. Þetta er lykillinn að því að við sköpum virði fyrir fyrirtæki sem vilja fá aðgang að góðri þekkingu og reynslu, til að mæta þörfum til framþróunar, öryggis og hagkvæmni.“

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir þessar breytingar rökrétt framhald á þeim áherslubreytingum sem unnið hafi verið að á undanförnum mánuðum. „Við höfum að undanförnu verið að skerpa á skipulagi samstæðunnar með það fyrir augum að bæta enn frekar þjónustuna við viðskiptavini, samhliða því að leita allra leiða til að ná fram hagræðingu í rekstrinum.“

Sensa var stofnað í ársbyrjun 2002 og keypti Síminn fyrirtækið árið 2007.