Birgir Þór Bieltvedt sér ný tækifæri í Domino‘s í kjölfar kórónufaraldursins. Til að mynda hafi mikilvægi tæknilausna og heimsendinga aukist til muna, þættir þar sem Domino‘s stendur mjög vel að vígi. Birgir staðfestir að hann hafi gert kauptilboð í Domino‘s hérlendis. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Skeljungur með í tilboðinu.

„Ég held að maður sé að horfa á Domino‘s á nýjan hátt. Þetta snerist rosalega mikið um að geta boðið upp á góða vöru, þjónustu og góða ímynd á sanngjörnu verði. Nú í dag þarf að bæta við þessu „elementi“ að heimurinn er búinn að breytast og Domino‘s eru einna fremstir í heiminum innan skyndibitans í tæknilausnum, heimsendingu og „take-away“ þannig að ég held að félagið eigi heilmikið inni,“ segir Birgir.

Hann telur gríðarleg tækifæri fyrir Domino‘s og bendir á að fyrirtækið sé komið með stærðarhagkvæmni. Verulega dýrt sé að byggja upp tæknilausnir líkt og snjallforrit og netverslun en að Domino‘s hafi burði til þess.

Seldi á 15-földu kaupverði

Birgir kom að stofnun Domino‘s á Íslandi sem opnaði sína fyrstu verslun 1993. Hann seldi síðan reksturinn árið 2005 en kom aftur að honum árið 2011 í kjölfar þess að Landsbanki Íslands tók yfir starfsemina. Birgir, ásamt hópi fjárfesta, seldi síðan reksturinn aftur í tvennu lagi árin 2016 og 2017 og hefur, líkt og áður sagði, gert kauptilboð á ný ásamt hópi fjárfesta. Í dag rekur Domino‘s 24 staði hérlendis.

Það var breska félagið DPG sem keypti reksturinn af Birgi á árunum 2016 og 2017. Kaupverðið hljóðaði upp á 8,4 milljarða króna en Birgir, með hópi fjárfesta, keypti reksturinn af Landsbankanum árið 2011 á 560 milljónir króna. Birgir á í dag hlut í Domino‘s í Noregi sem hann keypti af DPG fyrr á árinu. Domino‘s á Íslandi hagnaðist um 244 milljónir í fyrra en um 456 milljónir 2018.

Nánar er rætt við Birgi og fjallað um söluferli Domino's í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .