James Roaf, sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), hefur leiðrétt ummæli sín um að óljóst sé hvort skuldir sem íslenska ríkið hefur tekið á sig í kjölfar bankahrunsins séu sjálfbærar. Ummælin birtust á heimasíðu AGS og var sagt frá þeim í gærmorgun, m.a. á heimasíðu Viðskiptablaðsins.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu AGS á Íslandi þá nefndi Roaf óvart Ísland í þessu samhengi þegar hann var að fjalla um Írland og fleiri lönd.  Skoðunin sé ekki í samræmi við skýrslu starfsfólks AGS á Íslandi um sjálfbærni skulda íslenska ríkisins, sem eru frumheimildir sem sérfræðingar hjá AGS ytra vinna með.

Roaf tók saman skýrslu fyrir AGS um viðbrögð sjóðsins við fjármálakreppum undanfarinna ára og voru fjölmörg lönd undir í þeirri skoðun.