Saksóknari við embætti sérstaks saksóknara hefur í kjölfar rannsóknar á meintu verðsamráði lagt fram ákæru á hendur fimm einstaklingum í starfsliði BYKO. Ákæran grundvallast einkum á meintu verðsamráði starfsmanna BYKO og Húsasmiðjunnar og Úlfsins byggingarvara á árunum 2010 og 2011.

Í tilkynningu frá BYKO segir að eftir lestur ákærunnar sé það skoðun stjórnenda BYKO að í einu tilfelli, ákæru á hendur þáverandi framkvæmdastjóra fagsölusviðs BYKO, sem nú gegni öðrum störfum innan fyrirtækisins, sé eðlilegt að viðkomandi fari í leyfi þar til dómstólar hafa úrskurðað um sekt hans eða sýknu. Í ákærum gegn öðrum aðilum eru meintar sakir að mati BYKO þess eðlis að ekki sé ástæða til sérstakra aðgerða af hálfu fyrirtækisins.

Í tilkynningunni segir að ákæra sérstaks saksóknara valdi stjórnendum BYKO miklum vonbrigðum. Fyrirtækið hafi ávallt haft samkeppnislög eins og aðra lagaumgjörð rekstursins í heiðri og það sé einlæg von stjórnenda BYKO að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að ákæra saksóknara eigi ekki við rök að styðjast.