Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákærur í tveimur málum, og varðar annað þeirra eigin viðskipti Kaupþings fyrir bankahrunið 2008. Samkvæmt heimildum vb.is er um stór mál að ræða og eru sakborningar nokkrir í hvoru máli. Enn er ekki vitað hverjir sakborningarnir eru, eða hvort búið sé að birta öllum ákærðu ákæruna.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, varðist allra frétta þegar vb.is náði í hann í dag.

Viðskiptablaðið fjallaði í nóvember 2009 um rannsóknina á viðskiptum Kaupþings með eigin bréf í aðdraganda hrunsins. Kom þar fram að tap bankans vegna þessara viðskipta hafi numið um 15 milljörðum króna og að markmið viðskiptanna virðist hafa verið að halda verði hlutabréfanna uppi.

Fjallað er um viðskipti Kaupþings með eigin bréf í rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir að viðskiptin síðla árs 2007 og allt árið 2008 hafi raskað með óeðlilegum hætti eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum og gefið til kynna að hún væri allt önnur og meiri heldur en raunin var. Jafnframt hafi bankinn sjálfur borið stærstan hluta áhættunnar af þeim gjörningum. „Ekki fæst annað séð en að hluti slíkra lána hafi verið veittur til þess eins að liðka fyrir sölu eigin hlutabréfa úr veltubók bankans og komast þannig hjá því að senda inn flöggunartilkynningu, án þess þó að draga úr kaupum,“ segir í rannsóknarskýrslunni.