Því hefur verið beint til embættis sérstaks saksóknara að meta hvort bankastjórnendur og helstu hluthafar bankanna, sem nú hafa verið ríkisvæddir, hafi misfarið með vald sitt, en í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá 15. nóvember 2008 er sérstaklega talað um að niðurstöðu slíkrar rannsóknar eigi að birta eigi síðar en í lok mars 2009.

Í áætluninni er reyndar ekki minnst á sérstakan saksóknara - enda var embættið ekki orðið til á þeim tíma - heldur fjallað um það almennum orðum að þeir framkvæmdastjórar og hluthafar sem hafi misfarið með vald sitt eigi ekki að fá að gegna sambærilegum störfum næstu þrjú árin.

Samkvæmt lögum ber sérstökum saksóknara að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða er leiddu til bankahrunsins, hvort sem grunur tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga.