*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 10. maí 2021 13:13

Setja hálfan milljarð á skrifstofuna

Eigendur Ernst & Young hafa sett skrifstofur félagsins í Borgartúni 30 á sölu, en alls telur húsnæðið yfir 1.100 fermetra.

Ingvar Haraldsson
Margrét Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Ernst & Young á Íslandi og meðal hluthafa í Þaki fasteignafélagi.
Gígja Einarsdóttir

Eigendur endurskoðunarskrifstofunnar Ernst & Young hafa sett skrifstofuhúsnæði félagsins í Bogartúni 30 á sölu. Alls eru 1.147 fermetrar á 3. og 4. hæð til sölu en ásett verð er 500 milljónir króna samkvæmt fasteignaauglýsingu á Mbl.

Húsnæðið er í eigu Þaks fasteignafélags ehf. sem er samkvæmt ársreikningi ársins 2019 í jafnri eigu níu einstaklinga sem jafnframt eru meðeigendur hjá Ernst & Young á Íslandi. 

Bent er á í fasteignaauglýsingunni að fimm ár séu eftir af leigusamningi þar sem nú sé greidd 3,9 milljónir króna á mánuði án virðisaukaskatts. Næg bílastæði séu við húsið og útsýni yfir Esju til norðurs. Leigutekjur Þaks árið 2019 námu 44,5 milljónum króna og var hagnaður félagsins 17,6 milljónir króna.

56 ársverk voru hjá Ernst & Young á síðasta ári. Velta félagsins nam einum milljarði króna, laun og launatengd gjöld námu 782 milljónum króna og annar rekstrarkostnaður 163 milljónum króna og hagnaðist félagið um 45 milljónir króna.

Stikkorð: Ernst & Young EY Borgartún 30