Við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins á síðasta ári eignuðust Framtakssjóður Íslands og lífeyrissjóðir töluverðan hlut í félaginu eftir að hafa lagt því til þrjá milljarða króna. Íslandsbanki, sem jafnframt var viðskiptabanki félagsins, eignaðist þá um 25% hlut í félaginu, eftir að hafa m.a. breytt skuldum í hlutafé.

Hlutabréfaverð Icelandair Group hefur hækkað verulega, eða yfir 130%, frá hlutafjárútboði félagsins í lok síðasta árs. Fyrir síðustu jól fór fram almennt hlutafjárútboð Icelandair Group á genginu 2,5 en gengi bréfa við lok markaða á föstudag var sem fyrr segir 5,42.

Í miðri síðustu viku fór gengið yfir 5,8 sem þýðir að markaðsvirði félagsins er nú um 29 milljarðar króna.

Framtakssjóðurinn fjárfesti fyrir um 3 milljarða króna í félaginu á síðasta ári. Miðað við markaðsgengi nú mun sjóðurinn fá um 2,7 milljarða króna fyrir 10% hlut sjóðsins sem verður til sölu í dag.

Sjóðurinn á í dag 29% hlut í félaginu þannig ef svo fer að sjóðurinn nái að selja 10% í dag á sjóðurinn enn eftir 19% hlut. Önnur breyting sem verður þá er að sjóðurinn verður ekki lengur stærsti hluthafinn í félaginu þar sem Íslandsbanki á 20,6% hlut.

Gengi bréfa Icelandair Group lækkaði nokkuð á föstudaginn, eða um 4,1% í umtalsverðum viðskiptum. Velta með bréf í félaginu nam rúmlega 212 milljónum króna.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, vildi ekki tjá sig um söluna í dag þegar eftir því var leitað.