Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að setja á reglur um hámark greiðslubyrði fasteignalána. Greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána skal takmarkast við 35% en 40% fyrir fyrstu kaupendur, að því er kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun. Er þetta gert til að takmarka kerfisáhættu til lengri tíma og vísað er til ört hækkandi fasteignaverðs og aukinnar skuldsetningu heimila á síðustu mánuðum.

Lánveitendum er veitt undanþága frá reglunum fyrir allt að 5% heildarfjárhæðar nýrra fasteignalána sem veitt er í hverjum ársfjórðungi.

Nefndin ákvað einnig að hækka sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki úr 0% í 2% þar sem dregið hefur úr óvissu um stöðu fjármálafyrirtækja og gæði útlána hefur batnað.

„Þau búa því yfir nægum þrótti til lánveitinga til heimila og fyrirtækja. Nefndin telur ekki lengur þörf á því svigrúmi sem hún veitti fjármálafyrirtækjum eftir að farsóttin barst til landsins með lækkun sveiflujöfnunaraukans. Er það mat nefndarinnar að hratt hækkandi eignaverð samhliða aukinni skuldsetningu heimila, hafi nú þegar fært sveiflutengda kerfisáhættu að minnsta kosti á sama stig og hún var fyrir útbreiðslu farsóttarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Nefndin segir að sveiflujöfnunaraukinn hafi sannaði gildi sitt í faraldrinum og hefur nefndin tekið til skoðunar hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans eigi að vera til framtíðar.

Seðlabankinn undirbýr innlenda smágreiðslulausn

Fjármálastöðugleikanefndin segir þörf á að óháð innlend smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði verði til staðar samhliða greiðslukortum. Seðlabankinn undirbýr nú innleiðingu slíkrar lausnar. „Því mun fylgja aukið rekstraröryggi og hagkvæmni.“

Nefndin segir mikilvægt að fyrir rekstraraðila að huga að öryggi kerfa sinna og tryggja rekstrarsamfellu í ljósi nýliðanna netárása og rekstrartruflana í greiðslumiðlun.