Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) var í dag dæmd til að greiða bræðrunum Vincent og Robert Tchenguiz um 3 milljónir punda, jafnvirði rúmra 200 milljóna króna, í málskostnað eftir langvarandi málaferli bræðranna við stofnunina. Upphæðin sem efnahagsbrotadeildin þarf að greiða nemur um 10% af heildarfjárframlögum til hennar.

Rekja má þessi málaferli til rannsóknar efnahagsbrotadeildarinnar á viðskiptum Tchenguiz-bræðra við Kaupthing Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi, fyrir hrun en þeir voru umsvifamestu viðskiptavinir bankans. Robert var á meðal helstu lántakenda bankans. Hann sat jafnframt um tíma í stjórn Existu, stærsta hluthafa Kaupþings. Í tengslum við rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar á viðskiptum bræðranna var gerð húsleit hjá þeim og þeir handteknir.

Fordæmdi vinnubrögð lögreglu

Fram kemur á vef breska dagblaðsins Telegraph að sir John Thomas, einn af virtustu dómurum Bretlands, Sir John Thomas, fordæmdi vinnubrögð starfsmanna efnahagsbrotadeildarinnar harðlega og sagði hann stofnunina hafa sýnt fullkomna vanhæfni í tengslum við húsleitirnar og handtökurnar.