SFR vill sömu áherslur í kjarasamningum sínum og á almenna vinnumarkaðnum og ná niður verðbólgu. Þetta segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB á vefsíðu stéttafélagins. Fulltrúar BSRB og ríkisstjórnarinnar áttu sinn annan fund í dag vegna lausra samninga við ríkið. Forsætis-, utanríkis-, fjármála- og félagsmálaráðherra voru mættir á fundinn.

„Aðilar voru sammála um að hafa allt undir í viðræðunum, innihald kjarasamningsins og lengd samningstímans. Markmiðin eru þau sömu og í samningum á almenna vinnumarkaðinum að mikilvægast sé að ná niður verðbólgunni. Þá viljum við að samið verði um krónutöluhækkun en hún gagnast best lágtekju og miðlungstekjufólki," segir Ögmundur.