*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 4. nóvember 2004 10:17

SH kaupir sjávarafurðaframleiðslu Cavaghan & Gray Ltd.

Ritstjórn

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. (SH) hefur gengið frá kaupum á Cavaghan & Gray Seafood, sem er hluti af samstæðu Northern Foods Plc. Kaupverðið nemur 12,6 milljónum punda eða 1.600 milljónum króna. Við kaupin mun framleiðsla dótturfélaga SH í Bretlandi á kældum sjávarafurðum fyrir breskar smásölukeðjur aukast um 40 milljónir punda eða um 5 milljarða króna. Með kaupunum styrkir SH stöðu sína sem leiðandi aðili í framleiðslu kældra sjávarafurða fyrir breskan smásölumarkað segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Um er að ræða kaup á rekstri, fastafjármunum og hreinu veltufé, en engar vaxtaberandi skuldir fylgja. Verksmiðjurnar eru tvær, önnur í Grimsby þar sem 240 manns starfa og hin í Aberdeen með um 150 manna starfslið. Landsbankinn mun fjármagna kaupin til skemmri tíma. Gengið verður frá langtímafjármögnun á næstunni, samhliða fjármögnun á Seachill Ltd sem keypt var fyrr á árinu. Fjármögnunin verður í formi lánsfjár og útgáfu nýs hlutafjár. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitti SH ráðgjöf vegna kaupanna.

Aukning á framleiðslu SH á kældum afurðum í Bretlandi

Með kaupunum mun umfang SH í framleiðslu kældra sjávarafurða fyrir breskan smásölumarkað aukast umtalsvert, og eru kaupin í rökréttu framhaldi kaupa á Redditch verksmiðjunni 2002 og Seachill Ltd. í júlí sl. Framleiðsla SH á kældum afurðum fyrir Bretlandsmarkað mun nema um 160 milljónum punda á ársgrunni en heildarvelta samstæðunnar í Bretlandi verður 260 milljónir punda. Sala á kældum sjávarafurðum hefur vaxið hratt í Bretlandi á síðustu árum, en vöxturinn nam um 8,5% á síðasta ári. Markaðsrannsóknir benda til þess að vöxtur kælda markaðarins verði áfram mikill á næstu árum.

Framleiðsla Cavaghan & Gray á sviði sjávarafurða hefur að mestu leyti verið fyrir Marks & Spencer undir þeirra eigin merki, en smásölukeðjan hefur einnig verið stærsti viðskiptavinur dótturfélags SH, Coldwater UK, um árabil. Viðræður hafa átt sér stað við Marks & Spencer samfara kaupunum og hefur Marks & Spencer lýst yfir fullum stuðningi við þau.

Vörurnar eru svokallaðar virðisaukavörur svo sem brauðaður fiskur, lax, flatfiskur, bökur og þægindavörur tilbúnar til eldunar eða hitunar. Þær falla mjög vel að núverandi vöruframboði dótturfélaga SH í Bretlandi og er þess vænst að ná megi verulegri hagræðingu við samþættingu rekstrarins og viðunandi arðsemi heildarfjárfestingar SH í Bretlandi. Nánar verður fjallað um vænta afkomu SH samstæðunnar og áhrifa síðustu fjárfestinga þegar að hlutafjárútboði kemur.