Olíufélagið Shell íhugar að draga mikið úr hefðbundinni starfsemi sinni í Danmörku. Þetta herma heimildir viðskiptablaðsins Børsen. Bensínstöðvar verða seldar. Shell hefur gripið til sambærilegra aðgerða í öðrum löndum eins og Ástralíu og Bandaríkjunum.

Rekstur bensínstöðva hefur lengi verið erfiður og orsakast það af mörgum þáttum, að því er segir í Börsen. Meðal annars hefur þrýstingur á lengri opnunartíma verslana orðið til þess að hefðbundnar verslanir hafa tekið yfir þá verslun sem bensínstöðvarnar voru áður fyrr með. Þá eru bílar sífellt að verða sparneytnari og það dregur úr tekjum bensínstöðvanna af bensínsölu.

Tap hefur verið á hefðbundnum rekstri Shell í Danmörku í nokkur ár. Því er talið að það geti borgað sig að nýr eigandi með einfaldara viðskiptalíkan geti orðið til þess að styrkja Shell sem vörumerki í Danmörku og koma rekstrinum á réttan kjöl.