Shell tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi að minnsta kosti þurfa annað ár ti að undirbúa verkefni upp á 10 milljarða bandaríkjadala í Íran.

Shell hefur unnið með spænska fyrirtækinu Repsol að því að undirbúa nýtingu á gasi í suðurhluta Íran síðan í janúar á þessu ári. Talsmaður Shell sagði þó í gær að ekki hefðu verið teknar ákvarðanir með fjárfestingar en ljóst yrði að ekkert yrði úr þessum áætlunum á næsta ári.

Blaðið Daily Telegraph í London sagði frá því í gær að verkefninu hefði verið frestað en talsmaður Shell sagði að ekki hefði verið gefin út neinn tímarammi þannig að ekki væri um frestun að ræða. Hann sagði að það sem væri mest áríðandi væri að leysa bæði tæknihlið málsins og eins fjárfestingaröryggi þeirra sem kæmu að málinu.

Írönsk stjórnvöld hafa gefið Shell frest fram í júni á næsta ári en hafa þó lengt þennan frest áður. Fram kom hjá talsmanni Shell að fyrirtækið myndi vera í áframhaldandi samskiptum við stjórnvöld í Íran og það væri eðlilegur ferill verkefnisins.