Tvö og hálft ár eru síðan síðasti stóri kjarasamningur var undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Samningurinn var undirritaður í maí 2011 en tók gildi 22. júní sama ár.

Í samningnum var kveðið á um 4,25% launahækkun í júní 2011, 3,5% hækkun 1. febrúar 2012 og 3,25% hækkun 1. febrúar 2013. Samningurinn gilti til  31. janúar árið 2014 en í honum voru forsenduákvæði. Vegna þeirra var samningurinn styttur um tvo mánuði þann 21. janúar síðastliðinn og rann hann því út 30. nóvember eða á sunnudaginn var.

Til að útskýra þetta aðeins nánar þá var, um leið og samningurinn var undirritaður, skipuð svokölluð forsendunefnd sem í sátu tveir fulltrúar ASÍ og tveir fulltrúar SA. Hennar hlutverk var að fara yfir forsendur kjarasamninganna. Það gerði hún strax í byrjun því mánuður leið frá undirritun og þar til samningarnir tóku gildi, síðan fór hún yfir forsendurnar í janúar 2012 og janúar 2013.  Hún komst sem sagt að því í janúar síðastliðnum að forsendubrestur hefði orðið og í kjölfarið var samningurinn styttur um tvo mánuði.

Forsendur kjarasamninganna frá 5. maí 2011 voru að á árinu 2012 færi kaupmáttur vaxandi, verðbólga yrði innan við 2,5%, gengisvísitala krónunnar yrði innan við gildið 190 í desember 2012 og að stjórnvöld stæðu við fyrirheit í yfirlýsingu sinni í tengslum við kjarasamningana.

Aðeins ein forsendan hélt þegar farið var yfir samningana í janúar en það var forsendan um vaxandi kaupmátt launa. Verðbólgan var 4,2% á árinu 2012, gengisvísitala krónunnar var 227,4 í desember 2012 og þá taldi forsendunefndin að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við sitt. Nefndi hún í því sambandi að tryggingargjald hafi ekki verið lækkað til samræmis við minnkandi atvinnuleysi, bætur ekki hækkaðar til samræmis við hækkanir umsaminna kauptaxta og að ekki hafi verið stuðlað að auknum fjárfestingum og umsvifum eins og stefnt hafi verið að.

Í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gær, er úttekt á kjaraviðræðunum.