Síðasta prentaða tölublað tímaritsins Newsweek er komið út. Blaðið verður nú aðeins aðgengilegt lesendum á internetinu, í gegnum tölvur og farsíma.

Fyrsta tölublað Newsweek kom út árið 1933 og hefur um árabil verið annað stærsta vikurit Bandaríkjanna á eftir Time. Á síðustu árum hefur útgáfan skilað tapi og var það selt til nýrra eigenda árið 2010. Þá sameinaðist Newsweek útgáfufyrirtæki The Daily Beast í nóvember 2010. Til að mæta minnkandi áskrifendafjölda og til að draga úr kostnaði var tilkynnt í október síðastliðnum að síðasta prentaða útgáfa blaðsins kæmi út í lok þessa árs.

Á forsíðu síðasta tölublaðsins er mynd af skrifstofubyggingu Newsweek á Manhattan. Í fyrirsögn stendur „#Last Print Issue“.