„Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en svo að Framsóknarflokkurinn hafi viljað sýna að hann væri opinn flokkur sem væri tilbúinn að skoða allt upp á nýtt," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, um kjör sitt í dag.

Sigmundur Davíð tilkynnti fyrir fáeinum vikum að hann hygðist bjóða sig fram til formennsku en skömmu áður hafði hann gengið í flokkinn. Hann telur líklegt að hann bjóði sig fram til þings í næstu alþingiskosningum.

Hann segir að fyrsta verk sitt, sem formaður flokksins, verði að takast á við bráðavandann í efnahagslífinu. Bæta þurfi stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. „Það ætlum við að gera með því að samþykkja hér ályktun um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Í framhaldi af því - strax á morgun - ætla ég og fleiri úr forystu flokksins að funda með sérfræðingum sem best þekkja til á þeim sviðum sem við á , hvort sem það eru framsóknarmenn eða aðrir, með það að markmiði að finna skýrar leiðir til að taka á vandanum."

Næsta skref felist í því að bjóða ríkisstjórninni að koma tillögunum í gegn. „Framsóknarflokkurinn vill sýna að hann sé ábyrgur og þar af leiðandi tilbúinn að styðja þær aðgerðir sem þarf að ráðast í strax."

Vangaveltur um mistök settar til hliðar

Þegar hann er að lokum spurður hvort niðurstaðan í forystukjörinu sé í raun uppgjör gagnvart gömlum tímum segir hann: „Menn geta greint á um það hversu mikið ber að gera upp en ég held að þessi niðurstaða sýni að menn vildu eyða öllum vafa um það með því að setja það allt til hliðar."

Með því sé líka verið að setja til hliðar, segir hann, allar vangaveltur um það hvort mistök hafi verið gerð í fortíðinni eða ekki.