Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem Framsóknarmenn settu til að verja stjórnina vantrausti.

Of mikið ráðherraræði sé miðað við minnihlutastjórn og stjórnin hafi dregið lappirnar í veigamestu málunum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

„Þetta hefur ekki alveg gengið fyrir sig eins og við sáum fyrir okkur í upphafi, eins og lagt var upp með,“ sagði Sigmundur Davíð í samtali við RÚV  en vitnað var til gagnrýni sem Sigmundur Davíð lagði fram á heimasíðu sinni í dag.

„Við hefðum viljað sjá meiri aðgerðir og fyrr. Þessi ríkisstjórn hafði mjög afmarkað umboð til þess að taka á bráðavanda heimila og fyrirtækja í landinu en það hefur lítið gerst í því. Á meðan er dælt inn alls konar frumvörpum svona eins og frá ríkisstjórn sem ætlar sér að starfa í fjögur ár.“

Sigmundur segir að t.d. hafi of mikill tími farið í Seðlabankafrumvarpið. Framsóknarmenn séu óþreyjufullir eftir því að orðið verði við skilyrðum sem flokkurinn setti fyrir hlutleysi við ríkisstjórnina, s.s. eins í stjórnlagaþingsmálinu og að þing verði rofið 12. mars og kosningar boðaðar 25. apríl. Þá kom fram að Framsóknarflokkurinn ætli þó ekki fella ríkisstjórnina.

Sigmundur segir misskilning fólginn í því að halda að hér sé um að ræða samstarf flokka. Hér sé starfandi hefðbundin minnihlutastjórn, sem lítil reynsla sé af á Íslandi, en slík stjórn gangi út á það að ríkisstjórnin leiti til þingsins til að koma málum í gegn.

Sigmundur Davíð segir þessa ríkisstjórn hins vegar haf hagað sér sem ráðherraræðisstjórn. Steininn hafi tekið úr þegar því hafi verið hótað að þingfundur yrði ekki haldinn fyrr en að ákveðið mál væri afgreitt út úr nefnd og átti Sigmundur Davíð þar við Seðlabankafrumvarpið.

„Þingið var tekið í gíslingu af ráðherravaldinu,“ sagði Sigmundur Ernir og sagðist ekki vilja sjá slíkt þegar reynt væri að koma á alvöru þingræði.

Sjá frétt RÚV.