Sigmundur Davíð hefur birt upplýsingar um eignir og skattgreiðslur hans og konu hans sem unnar eru með aðstoð endurskoðanda KPMG. Gögnin ná um áratug aftur í tímann.

Á heimasíðu sinni segir Sigmundur að þær persónuupplýsingar sem hann birti nú séu langt umfram það sem hann hefði nokkurn tímann átt von á að verða krafinn um. Hann segir upplýsingarnar þær ítarlegustu sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur veitt  um eigin fjármál eða fjölskyldu sinnar og hvetur aðra kjörna fulltrúa til að gera slíkt hið sama. „Einkum þá sem hafa haft frumkvæði að því að gera fjármál annarra að pólitísku bitbeini.“

Eignir aldrei í skattaskjóli

Á síðunni kemur fram að félagið Wintris, sem er í eigu eiginkonu hans Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, hafi aldrei verið leynt og eignir aldrei verið í skattaskjóli. Gerð hafi verið grein fyrir félaginu, skráningarlandi þess og öllum eignum á skattframtali. Hann segir skattayfirvöld aldrei hafa gert athugasemd við með hvaða hætti talið er fram og að sú leið sem farin hafi verið við framtalsgerð hafi skilað ríkissjóði hærri skattgreiðslum en ef gert hefði verið upp eins og um félag í atvinnurekstri væri að ræða, þ.e. hin svokallaða CFC-leið.

Skattgreiðslur námu 300 milljónum króna

Á tímabilinu 2007-2015 námu skattgreiðslur Sigmundar og Önnu Sigurlaugar tæpum 300 milljónum króna. Segir hann að reiknað til núvirðis megi áætla að skattgreiðslur af eignum Önnu nemi hátt í 400 milljónum króna. Í gögnunum kemur einnig fram að fjármagnstekjur frá Wintris á árunum 2009-2015 nemi samtals 324.187.102 krónum en fármagnstekjuskatturinn nemur samtals 174.283.895 krónum.

Frá árinu 2010 hafa launatekjur Sigmundar verið allt frá 10.059.060 krónum árið 2010 og uppí 20.394.355 kr. árið 2015. Eiginkona hans hafði ekki launatekjur á árunum 2010 til 2015 aðrar en 333.684 krónur á árinu 2011. Samanlagður auðlegðarskattur hennar á árunum 2009-2013 er 85.340.556 krónur.