Stjórnarsáttmáli á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er langt kominn, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann segir í samtali við Morgunblaðið búið að fara yfir alla málaflokka og að lendingin í skuldamálum sé í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins. Enn á þó eftir að ræða um skiptingu ráðuneyta. Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið segja að ráðherrum verði fjölgað og að verkefnum velferðarráðuneytis verði skipt upp á milli tveggja ráðherra, heilbrigðisráðherra og ráðherra annarra málefna.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bætir við orð Sigmundar í Morgunblaðinu, að hann sé sáttur við þann farveg sem tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir væru komnar í. Sigmundur Davíð segir að þótt menn hafi náð saman um stefnuna og jafnvel útfærslu hennar eigi eftir að klára málefnin hvert fyrir sig.