„Þetta eru skilaboð um að áætlanir verða að vera raunhæfar,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis um skýrslu um framkvæmd fjárlaga á fyrsta ársfjórðungi sem nefndin hefur afgreitt. Skýrslan er nýlunda hér á landi en markmið hennar er að bæta framkvæmd fjárlaga.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar.

Nefndin leggur m.a. á það áherslu að fyrir 15. ágúst verði ráðuneytin búin að grípa til viðeigandi ráðstafana svo ríkisútgjöld verði í samræmi við fjárlög. Þá vekur fjárlaganefnd athygli á því að á gjaldahlið fjárlaga hefur ekki verið tekið tillit til margs konar óvissuþátta sem geti leitt til aukinna útgjalda ríkissjóðs. Þar á meðal eru mál sem tengjast mati á eignastöðu sparisjóða, Íbúðalánasjóðs og taps Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem getur skilað sér í mikilli hækkun á greiðslum til lífeyrissjóðsins, einkum vegna skuldbindinga til B-deildar sjóðsins. Svokallaðar hreinar lífeyrisskuldbindingar námu 345 milljörðum króna í lok árs 2010.

Fundað með sérfræðingum AGS

Fjárlaganefnd fundaði um málið með sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær.

Sigríður segir málið snúa að tæknilegri ráðgjöf AGS í tengslum við efnahagsáætlun stofnunarinnar og stjórnvalda sem lauk í fyrra. Hún bendir á að sérfræðingar AGS hafi skilað skýrslu um fjárreiðulögin í janúar þar sem þau voru skoðuð frá ýmsum hliðum.

Sigríður segir mikla vinnu hafa farið í það að endurskoða fjárreiðulögin frá árinu 1997. Fjármálaráðuneyti vinnur að endurskoðun fjárreiðulaga og undirbýr fjárlaganefnd sig fyrir því að taka við frumvarpinu og koma með athugasemdir við það.

Við endurskoðun fjárreiðulaga hafa verið borin saman fjárreiðulög hér og í öðrum löndum og gerði fjárlaganefnd Alþingis sér ferð utan til Svíþjóðar til að kynna sér umgjörð ríkisfjármála þar. Þar voru m.a. styrkleikar og veikleikar fjárreiðulaga hér bornar saman við þau sænsku. Sigríður segir í samtali við Viðskiptablaðið hafa vakið athygli sína að Svíarnir horfi mun lengra fram í tímann en hér, í sumum tilvikum hafi verið mörkuð braut 30 ár fram í tímann.

„Fjárreiðulögin frá árinu 1997 voru að mörgu leyti framsækin og góð. En það vantar meiri festu í þau og margt breyst á undanförnum fimmtán árum hvernig þetta á að vera,“ segir Sigríður.